Skip to the content

Flauelsbelti

Gripur vikunnar er nr. S-540. Það er flauelsbelti úr eigu Kristínar Símónardóttur í Gröf í Skaftártungu (1821-1907). Beltið er úr flaueli og skreytt baldýringu (útsaumur með silfurþræði) sem er verk Guðrúni Ísleiksdóttur frá Skál. Á því er beltispar úr kornsettu víravirki, með tveimur hálfkúlum sitthvorumegin. Á þeim hanga lauf, einnig úr víravirki. Þessi pör voru smíðuð í kringum 1850 en á þeim tíma voru beltispör í þessum stíl algeng. Oft er auðvelt að finna meira út um uppruna smíðisskartgripa því að margir smiðir stimpluðu handverk sitt, en það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli. Samkvæmt skráningarheimildum voru beltispörin líklega líklega smíðuð í Stykkishólmi.
Víravirki er gjarnan hluti af íslensku þjóðbúningarsilfri og hefur verið smíðað hér á landi frá því stuttu eftir landnám, þó stíllinn hafi breyst talsvert síðan þá. Víravirki á þó uppruna sinn löngu fyrir Íslandsbyggð, að minnsta kosti alla leið aftur í Súmeríu 2500 fyrir Krist.
Þessum grip fylgir annar, með sitt eigið gripanúmer. Þó er hann saumaður fastur við beltið. Það er silfurhnappurinn (nr.S-541) við hliðina á öðru beltisparinu á fyrstu myndinni. Samkvæmt skráningu þá er þessi hnappur af ferðafötunum sem að Þorlákur nokkur Jónsson úr Gröf var í þegar hann varð úti í Rangárvallaafrétt árið 1868. Kristín Bjarnardóttir, sem gaf belti ömmu sinnar á safnið, saumaði þennan hnapp á beltið.
(Þakkir til Dóru Jónsdóttur gullsmiðs fyrir sérfræðiálit)

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.