Skip to the content

Kertaform

Á Skógasafni nálgast jólin eins og annarstaðar á landinu og því er gripur vikunnar nr. R-6468, eða kertaform. Það var smíðað af og var í eigu Lofts Þórðarsonar á Bakka og var gefið á safnið af afkomendum hans. Formið er 27cm að lengd og 2cm á breidd, lokað í annan endan, gert úr járni en hankinn úr eir. Hérlendis voru kerti gerð úr tólg, yfirleitt svokölluð strokk-kerti. Þá var rökunum (kertaþráðunum) dýft endurtekið í strokk sem var hálf-fylltur af volgu vatni og heitri tólg hellt ofan á. Vatnið hélt tólginni bráðinni og gerði fólki kleift að dýfa rökunum endurtekið þar til kertin voru fullkláruð.
Á seinni hluta 19. aldar eignuðust fleiri kertaform eða gátu fengið þau lánuð. Fleiri fóru að steypa kerti í formum. Þá voru rökin sett ofan í formið, tólginni helt í og beðið eftir að allt storknaði. Kerti voru framleidd sem hluti af jólaundirbúningnum fyrir tíma raflýsingar á Íslandi. Það er kannski ekki skrítið þar sem jólin gerast á myrkasta tíma ársins, þegar von er fjögurra klukkutíma dagsljósi í mesta lagi. Á nútímamælikvarða gefa kerti kannski ekki mikið ljós, en þau gáfu samt mun meira ljós en lýsislampar þess tíma. Á hverjum bæ var útdeilt kertum á heimilisfólk fyrir aðfangadag. Þó réðu mismunandi hefðir og aðstæður eftir bæjum hversu mörg kerti hver og einn fékk.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.