Skip to the content

Togarinn Gustav Meyer - Togari sem lifði tvenna tíma

Gripur vikunnar er að þessu sinni mynd vikunnar, nr. V.Sk-Atv-215
Myndin er af þýska togaranum Gustav Meyer PG 375 frá Wesermunde. Hann strandaði við Meðallandssand 19. febrúar 1933. Varðskipið Óðinn hafði tekið skipið fyrir landhelgisbrot. Tókst ekki betur til en svo að skipið sigldi í strand en ekki sakaði 13 manna áhöfn. Óðni mistókst að ná því á flot og var það dæmt algert strand. Um þrjátíu Skaftfellinga, með Bjarna Runólfsson í Hólmi í broddi fylkingar, keyptu strandið á aðeins 560 krónur. Þeir fengu Einar M. Einarsson fyrrverandi skipherra á varðskipinu Ægi til þess að ná skipinu út. Það tókst í annarri tilraun 5. ágúst 1933, eingöngu með eigin vélarafli. Einar, Þorsteinn Árnason vélstjóri úr Reykjavík og þrír heimamenn – Halldór Davíðsson frá Steinsmýri, Siggeir Lárusson frá Klaustri og Þorlákur Pálsson frá Arnardrangi – sigldu svo skipinu til Reykjavíkur þar sem það var selt. Skipið fékk svo nafnið Gullfoss RE 120. Gullfoss fórst við Snæfellsnes um mánaðarmótin febrúar/mars 1941 með allri nítján manna áhöfn sinni.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.