Skip to the content

Vatnastöng og vörn gegn illu

Gripur vikunnar er vatnastöng, sem má sjá hér á myndinni í höndum Loryne, sem er ein af leiðsögumönnunum okkar hér á safninu. Slíkar stangir voru margnota. Hægt var að nota þær sem göngustafi en þær voru líka notaðar til að komast yfir ár. Þá vóg fólk sig yfir ekki ólíkt og það væri í stangastökki og gátu þeir fimustu komist ansi langt. Sumir gátu vippað sér heila sex metra ef að stöngin var nógu löng. Þannig mátti forðast það að vaða ár og einnig komast yfir sprungur.
Neðan á stönginni er vakabroddur úr járni. Hann var til þess að brjóta vök í ís á vatnsbólum sem voru notuð til að brynna húsdýrum. Á hinum endanum er krókur sem var notaður til að grípa hluti sem féllu í vatnið eða til þess að krækja í kindur. Málmsmíðin á stafnum er eftir Sigurþór Ólafsson á Gaddstöðum og stafurinn er frá Ægissíðu í Holtum.
Eins og var algengt með svona stangir er festur á hana koparhringur. Hagnýtt var að nota slíkan hring til að festa stafinn við klifbera á hesti þegar farið var á fjöll. En forvitnilegri er kannski hinn tilgangurinn. Samkvæmt þjóðtrú, þá gat ekkert óhreint komist að manni á göngu í myrkri ef að koparhringur var á stafnum. Hvort sem að það hefur verið hringurinn sjálfur sem að átti að gera útslagið eða hringlið í honum þegar maður stikaði áfram er þó ekki víst.

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.