Skip to the content

Verskrína - Mannshvörf á Mælifellssandi

Gripur vikunnar er heldur sérstakari en er ljóst við fyrstu sýn. Þetta er nr. S-2242, eða verskrína. Verskrínur voru notaðar af sjómönnum á leið til vertíðar til þess að geyma mat. Þessi verskrína átti hinsvegar heldur sorgleg örlög. Árið 1868 fóru fjórir menn til vertíðar í október frá Gröf í Skaftártungu. Þeir voru á leið til Suðurnesja, sem hefði orðið yfir 260 km ferð. Þetta voru Þorlákur Jónsson bóndi á Gröf (44 ára), Árni Jónsson frá Skálmabæ (52 ára), Jón Runólfsson frá Bakkakoti (32 ára) og Davíð Jónsson frá Leiðvelli (17 ára).
Þrátt fyrir ískyggilegt veður héldu mennirnir af stað um Fjallbaksveg syðri. Á leið sinni yfir Mælifellssand norðan Mýrdalsjökuls urðu þeir úti. Þegar ekkert fréttist af mönnunum eftir sem leið á veturinn var hafin leit af þeim. Líkamsleifar þeirra fundust þó ekki í heil tíu ár, fyrr en í haustleitum 1878.
Hægt var að þekkja mennina á vettvangi af fötunum sem þeir klæddust. Þó fór ekki betur en svo að öll bein þeirra væru sett saman í poka og borin til greftrunnar. Mennirnir voru grafnir í Ásakirkjugarði í sameiginlegri gröf og sárnaði Skaftfellingum þetta.
Þó að beinum mannana hefði verið komið til greftrunnar, þá var allur farangur þeirra og föt skilin eftir á fundarstað. Næstu nítíu árin var það ekki óalgengt að þeir sem ættu leið framhjá týndu upp ýmislegt af staðnum, allt frá hnöppum til hestnagla til fataleifa. Með tímanum endaði margt af því hér á Skógasafni. Þar með má telja verskrínuna, sem var endurbyggð og er nú á sýningu.
Þeir sem lásu um grip vikunnar í síðustu viku kannast kannski við nafn Þorláks. Á beltinu sem birt var þá, var einmitt silfurhnappur af jakkanum sem Þorlákur var í þegar hann varð úti. Kristín Símonardóttir, eiginkona hans, var eigandi beltisins og hefur hnappurinn líklega skilað sér til hennar eftir að lík Þorláks fannst á Mælifellssandi.
Ítarlegri sögu af þessu mannshvarfi má lesa á https://eldsveitir.is/2019/10/18/mannskadi-a-fjallabaksleid/

Leiðsagnir um safnið

Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.

Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.

Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.