Júní, júlí og ágúst frá 09:00 – 18:00
september - maí: 10:00 – 17:00
Samkvæmt Landnámubók nam Loðmundur land þar sem öndvegissúlur hans höfðu leiðbeint honum um landtöku frá Hafursá að Jökulsá á Sólheimasandi, þar sem Loðmundur kallaði bæ sinn Sólheima. Hann var talinn „rammaukinn mjög og fjölkunnigur.“ Áin hefur líka verið kölluð Fúlilækur þar sem af henni stendur stundum mjög megn hveralykt.
„Þá er Loðmundur var gamall, bjó Þrasi [Þórólfsson] í Skógum; hann var og fjölkunnigur.“ ... „hann fór af Hörðalandi til Íslands og nam land milli Kaldaklofsár og Jökulsár; hann bjó í Skógum hinum eystrum.“
Eitt sinn varð Þrasi var við vatnahlaup mikið sem hann veitt með fjölkingi sínu austur fyrir Sólheima. Loðmundur bauð þræli sínum að stinga stafsbroddi í vatnið, „ ... hélt Loðmundur tveim höndum um stafinn, en beit í hringinn. Þá tóku vötnin að falla vestur aftur fyrir Skóga. Síðan veitti hvor þeirra vötnin frá sér, þar til er þeir fundust við gljúfur nokkur. Þá sættust þeir á það, að áin skyldi þar falla, sem skemmst væri til sjóvar. Sú er nú kölluð Jökulsá og skilur landsfjórðunga.“ Þessi frásögn byggir á því að eftir landnám varð gos í suð-vestanverði Mýrdalsöskjunni sem varð til þess að sandarnir urðu til.
Jón Árnason fjallaði um þessar deilur þeirra nágrannanna í þjóðsagnabók sinni og bætir við í frásögnum af Þrasa: „Frá því hefur enn verið sagt um Þrasa að hann hafi komið kistu sinni fullri af gulli og gersemum undir Skógafoss og að fyrr meir hafi sést á annan kistugaflinn út undan fossinum.
Vísu kunna menn enn sem einhvern tíma hefur verið kveðin um þetta og er hún þannig:
"Þrasakista auðug er
undir fossi Skóga,
hver sem þangað fyrstur fer
finnur auðlegð nóga.“ “
Jón segir einnig frá því að þrír menn hafi reynt um 1600 að ná Þrasakistunni undan fossinum en þá hafi þeim sýnst sem bærinn stæði í ljósum logum svo þeir hafi því snúið frá. „Seinna fóru þeir aftur og ætluðu að ná kistunni og létu engar missýningar tæla sig. Komust þeir þá svo langt að þeir gátu krækt í hring sem var í kistugaflinum sem á sást. En þegar þeir ætluðu að draga að sér kistuna kipptist hringurinn úr gaflinum og höfðu þeir svo ekki meira af kistunni. Sagt er að sá hringur sé nú í kirkjuhurðinni í Skógum.“
Sagan um Þrasakistu er enn til í mörgum myndum í munnmælum, m.a. um að ungum pilti hafi tekist að komast bak við Skógafoss þar sem hún hvíldi á hillu, en þegar hann hafi ætlað að lyfta kistunni upp hafi hún rifnað svo allt hrundi ofan í fossin mema annar hringurinn af henni sem síðan hafi verið á kirkjudyrunum í Skógakirkju til þess tíma sem hún var aflögð árið 1890. Hringurinn var þá settur á hurðina á Eyvindarhólakirkju en þegar nýja kirkjan var byggð árið þar árið 1961 fék Skógasafn hringinn þar sem hann er nú mjög vinsæll sýningargripur og merki safnsins.
Júní, júlí og ágúst frá 09:00 – 18:00
september - maí: 10:00 – 17:00
Sími 487 8845
Leiðsagnir um safnið
Leiðsagnir um safnið eru í boði fyrir pantaða hópa sem telja tíu eða fleiri á ensku, þýsku og íslensku. Einnig gefst stundum kostur að fá leiðsögn á frönsku og norðurlandamálum.
Leiðsagnir eru í boði frá opnun og fram til klukkutíma fyrir lokun.
Meiri upplýsingar um pantanir fyrir hópa og leiðsagnir má nálgast á booking@skogasafn.is eða í síma 487 8845.